Stevíu er hægt að nota sem krydd á allan mat en hún er ekki eins og aðrar kryddjurtir því hún er nefnilega sæt á bragðið. Sérstaklega er gott að klippa laufin í smáa bita þó ekki of litla og setja út í allskonar rétti t.d. hakk og spaghettí, fiskréttir, gúllas o.fl. Þegar maður er svo að borða réttinn og fær stevíulauf með bitanum sínum þá finnur maður sætt bragð af matnum sem er skemmtileg tilbreyting. Einnig er hægt að nota þurrkaða stevíu út í kaffi, te, kakó eða hvers konar drykk sem þú vilt gera sætari. Henni er hægt að bæta út í salat og jafnvel nota í bakstur. Það þarf ekki mikið af stevíu til að gera matinn bragðgóðan. Byrjið smátt og prufið ykkur áfram.

Fjölgun

Ég hef oft heyrt að erfitt sé að rækta stevíu frá fræi en mér hefur tekist það ágætlega. Þegar stevía er ræktuð frá fræi er fræjum stráð yfir blautan jarðveg með um þriggja cm millibili, örþunnu lagi af jarðvegi er svo bætt ofan á. Einnig er hægt að láta fræin spíra í þurrkupappír eða bómull áður en plantað er í jarðveginn. Þá er bómullin eða bréfið lagt í botn á íláti og vatni bætt við þar til efnið er orðið vel rakt. Passa þarf að setja ekki meira vatn en efnið getur dregið í sig, fræin eiga ekki að fara í kaf í vatn. Fræjunum er svo dreift yfir og passa verður að fræin snerti vel blautt efnið. Ílátinu er svo lokað. Gott er að geta séð fræin án þess að þurfa að opna ílátið. Ílátinu er svo komið fyrir á hlýjum stað og fylgst með því daglega. Þegar fræin spíra og fyrstu laufin koma í ljós þá eru plönturnar varlega plokkaðar upp með fingrunum en það er í lagi að það komi smá bréf með rótunum. Fræjunum er síðan komið fyrir í jarðvegi svo laufin og smá stöngulbútur standi upp úr. Fyrst um sinn er plöntunum plantað með um 3 cm milllibili í a.m.k. 15-20 cm potta. Eftir því sem plönturnar stækka er ágætt að fækka þeim með því að nýta minnstu plönturnar í matargerð þar til örfáar stórar plöntur eru eftir eða jafnvel bara ein.

Umhirða

Stevíur þurfa að hafa mikið lífrænt efni í jarðveginum, hann þarf að haldast nokkuð rakur því þær þola illa þurrk. Til þess að halda þeim örum vexti er gott að nota fljótandi áburð reglulega. Stevíur eru ágætlega harðgerðar og mega fara beint út í garð ef engin hætta er á frosti. Þær koma upp í görðum hjá fólki ár eftir ár en ég er ekki viss hvort þær eru fjölærar eða hvort þær eru að sá sér. Stevíur vaxa best í sterkri sól en þola talsverðan skugga, þær vaxa vel út í glugga eða undir flúrlampa en þola vel sterkari lýsingu líka.

Uppskera

Hægt er að byrja að týna laufin af þegar nóg er orðið af þeim á plöntunum eða þær orðnar 10-20 cm háar. Best er að týna fullvaxin eða hálfvaxin lauf sem eru ekki of gömul. Gömlu laufin má þó tína og nota en ég myndi frekar þurrka þau. Til þess að búa til stevíuduft þarf talsvert mikið af laufum og það þarf að þurrka þau. Best er að þurrka þau á stilkunum og svo þegar þau eru orðin þurr þá er auðvelt að brjóta þau af. Laufin eru síðan sett í mortél þar sem þau eru mulin í fínt duft. Það þarf að fjarlægja æðastrengina úr duftinu því erfitt er að mylja þá. Einnig er hægt að nota blandara eða álíka.