Þegar maður vill fá sér ávaxtatré þá er gott að hugsa málið örlítið áður en rokið er af stað að kaupa tré. Það er ekki alltaf sniðugt að kaupa tré einungis út af verðinu.

Til eru margar tegundir af trjám af mismunandi rótarstofnum. Lykilatriði er að spyrja starfsfólk verslana og alls ekki kaupa tré af fólki sem ekki hefur vit á því sem þau eru að selja. Hér eru grunnupplýsingar sem ég tel skipta máli til að þú getir aflað þér frekari upplýsinga og tekið ákvarðanir eftir þeim. Annars mæli ég með því að skella sér á eitt stutt námskeið um ávaxtaræktun en þau eru í boði reglulega.

Skoðið trén vel og leitið ráða
Eru þetta gæðatré? Eru þau ágrædd? Ef svo er, er þá ágræðslupunkturinn ofanjarðar? Ef ekki eða ef hann er of neðarlega þá leitarðu annað. Eru greinar brotnar eða særðar eða eru þær hraustlegar? Eru svartir blettir á trénu þar sem það hefur verið klippt? Hvað eru greinarnar margar eða fáar? Hvort er betra?

Hvar á tréð að lifa?
Þetta getur skipt miklu máli t.d. við val á rótarstofni. Á tréð að vera í potti á svölum, inni í gróðurhúsi, garðskála, við sumarbústaðinn eða í garðinum? Hvernig er skjólið og sólin? Verður tréð vökvað eða kemst regnvatn að því? Þessi atriði þarft þú að hugsa um og starfsfólk þarf helst að geta sagt þér hvort trén sem þau eru að selja passi við þínar aðstæður.

Staðsetning:
Veldu staðinn sem er með sem mest skjól og sólarljós en varast skal að það myndist aðstæður þannig að tréð fari of snemma af stað um vorið en þá getur það getur skemmst í vorhreti. Skoðaðu svæðið því vel og athugaðu hvernig aðstæðurnar eru yfir allt árið. Staðsetning skiptir líka máli fyrir vökvun en það er ekki skynsamlegt að það sé of erfitt að vökva. Eins verður að athuga hvort tréð verði fyrir þegar það stækkar, þ.e.a.s. hafi áhrif á útsýnið eða verði fyrir göngu og leiksvæðum. Hvar á það eftir að njóta sín best?

Flutningur:
Alls ekki skella laufguðu tré á kerru eða pall og keyra með það óvarið. Vindurinn getur rifið blöðin og gífurlegt þurrkálag myndast. Vefjið trénu inn í plast eða annað sem skýlir því frá vindi. Annars ætti tréð ekki að vera laufgað í hinum fullkomna heimi.

Gróðursetning:
Ávaxtatré þurfa góðan jarðveg fyrstu árin og því er mikilvægt að vera ekki að spara hann. Ef tréð á að fara í jörð þá ætti holan að vera um tvöfalt breiðari en rótarmassinn og örlítið dýpri (sama gildir ef rækta á í pottum, betri vöxtur verður í stærri pottum). Í botn holunnar er svo settur nýr jarðvegur svo tréð fari ekki of djúpt. Örlítil þjöppun minnkar líkur á jarðsigi. Gott er að láta rótarmassann mynda lítinn hól 2-3cm. Þá minnka líkur á að tréð sökkvi og dæld myndist. Ræturnar þola ekki beint sólarljós svo ef það er verið að gróðursetja í sólskini þá þarf að gæta þess að sólin skíni ekki lengur en hálfa mínútu á ræturnar. Nauðsynlegt er að ágræðslupunkturinn sé allavega 5 cm fyrir ofan jarðveginn svo ekki myndist rætur úr efri stofn trésins því það getur breytt vaxtarlagi þess þar sem að rótin stýrir því. Þegar trénu hefur verið komið fyrir í réttri hæð er holan fyllt í kringum það. Gættu þess að hafa tréð í miðri holu annars getur það haft áhrif á rótarvöxt sem síðar kemur út í vexti ofan jarðar. Þjappaðu jarðveginum vel kringum tréið, vökvaðu vel og athugaðu hvort eitthvað þurfi að laga aftur.

Ekki nota ferskan húsdýraáburð í holuna en ef það á að nota hann þá er best að hann sé vel niðurbrotinn. Óniðurbrotinn húsdýraáburður dregur köfnunarefni úr jarðveginum til að byrja með og veldur því óáreiðanlegu framboði næringarefna en það er þó í lagi að hann sé settur ofan á jarðveginn.

Klippingar og umhirða:
Til þess að fá sem mest út úr ávaxtatré verður að klippa það. Það þarf að vanda til verka, en það þýðir ekki að klippa eftir eigin höfði. Annaðhvort færðu vanan einstakling til verksins eða sækir námskeið, annars áttu það á hættu að skemma ávaxtatréð. Aldin koma oftast á ársgamlar og eldri greinar svo ekki búast við miklu af ávöxtum fyrstu árin, ávaxtatrjáræktun er ekki fyrir óþolinmóða.

Gott er að halda jarðveginum í kringum ávaxtatréð gróðurlausum fyrstu árin til að minnka samkeppni við það. Á vorin (seinni hluta apríl) er gefinn köfnunarefnisríkur áburður en ég mæli síðan eindregið með því að áhugasamir skelli sér á námskeið til að læra nánar um áburðargjöf.