Til eru margar tegundir af Basilíkum sem bragðast og ilma ótrúlega skemmtilega. Dæmi eru: Sætbasilíka (sweet basil), Lakkrísbasilíka (basil anise), Kanilbasiliíka (cinnamon basil) og Sítrónubasilíka (lemon basil). Það er ekki annað hægt en að taka aftur fram að ilmurinn er æðislegur sem magnast upp þegar plönturnar eru snertar og því er mjög ánægjulegt að sinna þeim.

Basilíka er sérstaklega góð í pastarétti og passar oft vel við ítalska matargerð. Sem krydd passar hún vel á bæði kjöt, fisk og jafnvel út í súpur.

Fjölgun

Þegar basil er ræktað frá fræi er fræjum stráð yfir blautan jarðveg með um þriggja cm millibili, örþunnu lagi af jarðvegi (1-3mm) er svo bætt ofan á til að halda raka að fræjunum.

Einnig er hægt að láta fræin spíra í einhverju líkt og þurrkupappír eða bómull áður en plantað er í jarðveginn. Þá er bómullin eða bréfið lagt í botn á íláti og vatni bætt við þar til efnið er orðið vel rakt. Passa þarf að setja ekki meira vatn en efnið getur dregið í sig, fræin eiga ekki að fara í kaf í vatn. Fræjunum er svo dreift yfir og passa verður að fræin snerti vel blautt efnið. Ílátinu er svo lokað. Gott er að geta séð fræin án þess að þurfa að opna ílátið.

Þessu er svo komið fyrir á hlýjum stað (20-25°C) og fylgst með því daglega. Þegar fræin spíra og fyrstu laufin koma í ljós þá eru plönturnar varlega plokkaðar upp með fingrunum en það er í lagi að það komi smá bréf með rótunum. Fræjunum er síðan komið fyrir í jarðvegi svo laufin og smá stöngulbútur standi upp úr. Fyrst um sinn er plöntunum plantað með um 3 cm milllibili í a.m.k. 15-20 cm potta. Eftir því sem plönturnar stækka er ágætt að fækka þeim með því að nýta minnstu plönturnar í matargerð þar til örfáar stórar plöntur eru eftir eða jafnvel bara ein.

Umhirða

Það er gott að nota jarðveg sem hleypir vel vatni í gegn um sig til að forðast það að drekkja plöntunum. Ég set alltaf eitt lag af pappír í botninn á blómapottum til þess að jarðvegurinn leki ekki út úr þeim.

Basilíka er hitakær planta og vill helst vera í hita yfir 20°C, hún gengur því ekki vel sem útiplanta á Íslandi. Hún vex hratt í mikilli birtu og gengur best ef hún fær sól sex tíma á dag eða meira. Lítið mál er að rækta basil undir LED eða flúrljósum hvort sem er til að lengja daginn eða sem eini ljósgjafinn.

Það þarf að vökva Basilíku vel og passa að hún þorni ekki, hún á þó ekki að standa mikið í vatni. Ef plantan er í of litlum potti þá þarf að vökva oftar þar sem meiri hætta er á ofþurrki. Ef plöntur eru keyptar tilbúnar þá eru þær yfirleitt í pottum sem eru heldur litlir og umpottun í stærri pott væri sniðug.

Uppskera

Plönturnar verða mjög runnalegar og þéttar ef þær eru klipptar reglulega. Þegar toppurinn er klipptur af þá koma oft 2-4 toppar í staðinn. Blómin eru falleg en mælt er með að klippa þau af eins fljótt og hægt er því annars getur bragðið af laufunum orðið rammt en sjálfur nýti ég blómin í matseld og salat. Mjög gott er að klippa plöntuna ferska beint út í matinn, þannig helst bragðið sem ferskast. Einnig er hægt að þurrka hana og mylja í krydd, hvort sem það er sér eða í kryddblöndur. Ráðlagt er að bæta basiliku ekki of snemma í matinn því hún verður römm við mikla eldun, ég hef samt ekki orðið var við það sjálfur.

Þegar plantan eldist breytist hún að lokum í lítið krúttlegt tré sem þér fer að þykja vænt um. En viljirðu yngja upp þá geturu leyft henni að gera það sem hún þráir mest, sem er að blómstra fyrir þig. Hún mun svo leggja allt í að framleiða fyrir þig fræ svo þig muni aldrei vanta fræ aftur.