Allar plöntur þurfa ljós til þess að framleiða orku því plöntur framleiða sína eigin orku með ljóstillífun. Plöntur geta hinsvegar ekki nýtt allt ljós eins vel en þær nýta best rautt og blátt ljós til ljóstillífunar. Til þess að geta ræktað allan ársins hring, eða bara til þess að koma af stað græðlingum á vorin, þarf raflýsingu vegna þess að sólarljós eitt og sér er ekki nægjanlegt yfir veturinn á Íslandi. Þetta á sérstaklega við um inniræktun þar sem birta kemst bara inn um glugga og enn frekar þegar engin utanaðkomandi birta kemst að ræktunarsvæðinu.

Atriði sem þarf að hafa í huga við val á ljósi eru eftirfarandi:

Hvernig lýsing?

Nánast allir ljósgjafar geta verið nýttir til að láta plöntu vaxa en það getur verið slæmt að velja gróðurljós án þess að hafa nægar upplýsingar. Algengustu ljósgjafarnir sem nýtast sem gróðurljós eru:

Flúrperur t5/t8, Sparperur, HPS lampar, MH lampar og Díóðuljós (LED).

Einnig eru til ljósgjafar sem henta frekar illa til ræktunar og má þar nefna glóperur og halogen lampa sem dæmi en þessi ljós gefa frá sér of mikinn hita miðað við ljósmagn og nýtast því illa.

Fyrir litla ræktun með fáum plöntum eru lítil flúrljós mjög hentug, en fyrir víðfeðma ræktun með mörgum plöntum eru HPS og MH hentugari.

Nýtni

Hvað nýtir ljósið mikið af orkunni til að framleiða ljós? Ljósmagn er mælt í Lux eða Lumen og nýtni ljósa er oftast gefið upp sem hversu mörg Lumen þau gefa frá sér fyrir hvert Watt (lm/W). Sem dæmi nýta glóperur orkuna illa og gefa frá sér mikinn hita og lítið ljós en díóðuljós gefa frá sér lítinn hita og mikið ljós. Það er algengur misskilningur að við gróðurlýsingu séu notaðir hitalampar en ekki ljóslampar, en hitinn frá ljósunum er oft jafnvel óæskilegur og bara orkusóun.

Hiti

Öll ljós gefa frá sér hita en þó mismikinn. Ef þú ert t.d. að rækta innandyra eða jafnvel í gróðurtjaldi getur auðveldlega orðið of heitt fyrir bæði plöntur og fólk ef gróðurlampi gefur frá sér of mikinn hita.

Bylgjulengd / Litur

Venjulegar flúrperur eða sparperur duga vel sem gróðurlýsing en helsti gallinn við þær er að þær framleiða mikið af grænu og gulu ljósi. HPS perur gefa frá sér mikið af rauðu ljósi og henta vel fyrir blómgun og ávaxtamyndun. Metal halide perur gefa frá sér mikið blátt ljós sem hentar grænvexti mjög vel. Díóðulýsing hentar mjög vel til ræktunar því hægt er að velja nákvæmlega hvaða hluta litrófsins maður notar. Oft hafa verið notaðir lélegir lampar með röngu og of þröngu bylgjusviði og hefur þetta gefið díóðum slæma umfjöllun.

Afl

Ef þú ert með eina plöntu úti í glugga þá getur dugað að nota 10-20 W sparperu en stærri planta þarf meira ljós. Oft er talað um magn lýsingar í vöttum á fermeter (W/m²). Það fer algjörlega eftir því hvaða plöntu er verið að rækta hversu mikið ljós þarf. 100-400 W/m² eru tölur sem eru algengar í ræktun plantna. T.d. myndi salat þurfa á bilinu 100-150 W/m² en tómatar 200-400 W/m²

Fjarlægð:

Fjarlægðin gerir fjöllin blá en gróðurljós gagnslaus. Ljós missir afl mjög hratt með fjarlægð en ef ljósstyrkur lampa í 10 cm frá plöntu telst 100% þá fellur hann niður í 25% við að vera færður í 20 cm fjarlægð. Díóður, flúrperur og sparperur geta verið staðsettar mjög nálægt plöntum án þess að brenna þær. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að sé fjarlægðin of lítil verður dreifing ljóssins ekki nægjanleg og þá fá sumir hlutar plöntunnar of lítið ljós á meðan aðrir fá of mikið.