Rósmarín ilmar og bragðast einstaklega vel, það er nauðsynleg á lambakjötið, svínið og gott á kjúklinginn, ofnbakaðar kartöflur og sætar kartöflur. Hægt er að setja rósmarín út í olíur og edik og það passar mjög vel með appelsínum og öðrum ávöxtum. Einnig passar það vel með búðing og stöppum.

Fjölgun

Með fræjum

Rósmarín er ekki auðvelt að rækta frá fræjum, þau spíra illa og ungar plöntur eru viðkvæmar. Það er samt þess virði þegar það heppnast. Fræjum er stráð yfir jarðveginn og þunnu jarðvegslagi dreift yfir, ég mæli með að láta fræin spíra í þurrkupappír eða bómull áður en plantað er í jarðveginn. Þá er bómullin eða bréfið lagt í botn á íláti og vatni bætt við þar til efnið er orðið vel rakt. Passa þarf að setja ekki meira vatn en efnið getur dregið í sig, fræin eiga ekki að fara í kaf í vatn. Fræjunum er svo dreift yfir og passa verður að fræin snerti vel blautt efnið. Ílátinu er svo lokað. Gott er að geta séð fræin án þess að þurfa að opna ílátið. Ílátinu er svo komið fyrir á hlýjum stað og fylgst með því daglega. Þegar fræin spíra og fyrstu laufin koma í ljós þá eru plönturnar varlega plokkaðar upp með fingrunum en það er í lagi að það komi smá bréf með rótunum og þeim er síðan komið fyrir í jarðvegi svo laufin og smá stöngulbútur standi upp úr. Plönturnar eru settar síðan í sérpott út af fyrir sig og komið fyrir á björtum stað.

Með græðlingum

Auðvelt er að fjölga rósmarín með græðlingum. Þegar græðlingar eru teknir af rósmarín þá eru þeir teknir af ársvexti plöntunnar (ársvöxtur plöntunnar telst vera sá hluti plöntunnar sem hefur grænann og mjúkann stilk en ekki trénaðan).

Teknir eru um 5 cm bútar með fjórum pörum af laufblöðum hver. 2 pör af laufblöðum eru svo fjarlægð af neðri hluta stilksins og þeim hluta er síðan stungið ofan í rakt ræktunarefni. Gæta þarf að því að a.m.k ein til tvö stöngulliðamót fari ofan í ræktunarefnið því þar er oftast mesta myndun róta á græðlingum. Græðlingarnir þurfa góða loftun um tilvonandi rætur og því er nauðsynlegt að nota ekki of þétt ræktunarefni. Þéttur leirríkur jarðvegur hentar sérstaklega illa á meðan kókostrefjar henta mjög vel til þess að tryggja aðgengi græðlinganna að súrefni og stuðla að rætingu.

Á þessu stigi eru plönturnar mjög viðkvæmar fyrir þurrkskemmdum vegna þess að þær hafa ekki rætur til að taka upp nýtt vatn í staðin fyrir það sem þær nota í vöxt og öndun. Það er því mikilvægt að halda háu rakastigi í kringum plönturnar fyrstu tvær til þrjár vikurnar til þess að takmarka vökvatap plantnanna á þessu viðkvæma tímabili. Einnig er mikilvægt að hlífa þeim fyrir sterku ljósi en tryggja samt að þær fái eitthvað ljós í a.m.k. í 10 klst á dag.

Rótarhormón eru óþarfi við rótun á Rósmarín að mínu mati því það rótast mjög vel án þess.

Eftir fyrstu tvær til þrjár vikurnar þarf svo að byrja að venja plönturnar við lægra rakastig og aukna birtu. Séu notuð óvirk ræktunarefni þarf fljótlega að byrja að vökva með daufri áburðarlausn.

Umhirða

Rósmarín er mjög lengi að stækka og ég mæli því með því að fólk kaupi frekar tilbúnar plöntur. Það eru til fjölmörg yrki af rósmarín sem eru misharðgerðar. Ég hef heyrt um plöntur lifa af íslenskan vetur en ég myndi ekki prufa það nema á plöntu sem ég væri tilbúinn að missa. Þær þola hinsvegar vel að vera úti yfir sumarið og ég mæli með að hafa plöntuna í potti frekar en beði til að hægt sé að færa hana inn yfir veturinn.

Plönturnar þurfa vel drjúpan jarðveg blandaðan með vikri eða sandi. Þær þola einhvern þurrk en ekki að jarðvegurinn þorni alveg í gegn. Þegar yfirborð jarðvegs er orðið þurrt eða alveg að verða það er tímabært að vökva vel. Ekki er mikil þörf á áburðargjöf en gott er að nota daufan fljótandi áburð annað slagið. Plönturnar vaxa best í mikilli sól, þola skugga en þá vaxa þær nánast ekkert. Til þess að rækta þær undir ljósi þarf nokkuð öflugri lýsingu en á aðrar kryddjurtir af minni reynslu. Flúrlampi dugar en Rósmarín vex talsvert hraðar undir HPS lampa.

Uppskera

Rósmarín er hægt að nota ferskt og þurrkað. Það tapar hinsvegar bragðgæðum við þurrkun og því er það kostur að tína af plöntunni eftir þörfum. Bæði er hægt að tína lauf eða klippa heila sprota. Lauf eru sett beint í mat til að borða en einnig er hægt að setja sprota með áföstum laufum í mat en hann er svo fjarlægður. Ef laufin eru þurrkuð er gott að nota piparkvörn til þess að laufin haldist sem ferskust þar til þau eru mulin út í matinn.