Kóríanderjurtin er aðallega notuð í mat á tvo vegu, laufin eða fræin. Einnig er þó hægt að nota rætur plöntunnar, þær eru bragðmeiri en laufblöðin. Fræin kallast coriander á ensku en laufin cilantro. Laufin eru oft notuð í asíska matargerð og alls kyns salöt. Yfirleitt eru þau notuð í óeldaða rétti eða bætt út í eldaðan mat rétt í lokin vegna þess að þau þola eldun ekki vel. Fræin eru mjög þægileg því hægt er að setja þau í piparkvörn. Sumum finnst gott að léttsteikja fræin áður en þau eru sett í piparkvörnina og segja að það breyti bragðinu til hins betra. Fræin er hægt að nota í allskyns mat eftir smekk.

Fjölgun

Kórínaderfræin eru frekar stór eða á stærð við piparkorn og þegar það á að sá fræjunum er þeim stráð yfir blautan jarðveg með um þriggja cm millibili. Síðan er 0,5-1 cm lagi af jarðvegi bætt ofan á. Einnig er hægt að láta fræin spíra í þurrkupappír eða bómull áður en plantað er í jarðveginn. Þá er bómullin eða bréfið lagt í botn á íláti og vatni bætt við þar til efnið er orðið vel rakt. Passa þarf að setja ekki meira vatn en efnið getur dregið í sig, fræin eiga ekki að fara í kaf í vatn. Fræjunum er svo dreift yfir og passa verður að fræin snerti vel blautt efnið. Ílátinu er svo lokað. Gott er að geta séð fræin án þess að þurfa að opna ílátið. Ílátinu er svo komið fyrir á hlýjum og dimmum stað og fylgst með því daglega. Þegar fræin spíra og fyrstu laufin koma í ljós þá eru plönturnar varlega plokkaðar upp með fingrunum en það er í lagi að það komi smá bréf með rótunum. Fræjunum er síðan komið fyrir í jarðvegi svo laufin og smá stöngulbútur standi upp úr. Fyrst um sinn er plöntunum plantað með um 3 cm milllibili í a.m.k. 15-20 cm potta. Eftir því sem plönturnar stækka er ágætt að fækka þeim með því að nýta minnstu plönturnar í matargerð þar til örfáar stórar plöntur eru eftir eða jafnvel bara ein.

Umhirða

Plönturnar vilja hafa jarðveginn rakan og þola illa þurrk. Þær eru ágætlega harðgerðar og mega fara beint út í garð ef engin hætta er á frosti. Ég hef þó lesið að þær þoli eitthvað frost en ég tek því þó með fyrirvara. Fari hitastig á jarðvegi mikið yfir 23 gráður fara plönturnar í blómgunarham, því er gott að passa hitastigið ef maður vill bara laufin en ekki fræin. Plantan vex vel út í glugga eða undir flúrlampa og þolir vel sterkari lýsingu.

Uppskera

Hægt er að byrja að týna laufin af þegar nóg er orðið af þeim á plöntunum eða þær orðnar 10-20 cm háar. Annaðhvort eru eldri stærri laufblöðin klippt af eða í mesta lagi 1/3 af hæð plöntunum. Laufin eru notuð fersk því þau koma ekki vel út úr þurrkun. Ef blóm fara að myndast þá er hægt að klippa þau af til að viðhalda laufvexti lengur en það verður erfiðara og erfiðara en á endanum er best að leyfa plöntunni bara að blómstra. Þegar hún hefur blómstrað að fullu fer plantan í það að mynda fræ. Það sést hvenær fræin eru tilbúin því þá skrælnar plantan upp og þá er hægt að byrja að uppskera fræin. Ég set myndband hér að neðan sem útskýrir betur uppskeru á fræjum plöntunnar.