Sparperur (CFL; Compact fluorescent lights) eru í raun flúrperur sem er búið að þjappa saman. Þess vegna gildir flest um flúrperur einnig um sparperur (Lestu nánar um flúrperur hér). Aðalmunurinn felst í því hvernig þær eru nýttar ásamt styttri líftíma (oftast undir 10.000 klst. af notkun) en hann er oftast gefinn upp á umbúðum perunnar.
Skermur fyrir sparperu ræktunarlýsing (mynd vantar)
Besti kosturinn við sparperur sem gróðurljós er lágur byrjunarkostnaður, þ.e.a.s. það þarf ekki dýra skermi, sérkennileg perustæði, ballöst eða startara. Aðrir kostir eru að auðvelt er að koma perunum fyrir í kringum og á milli plantna. Perurnar eru sérstaklega hentugar fyrir ræktun í litlu rými m.a. vegna minni þarfar á kælingu og hversu þéttar/öflugar (miðað við langar flúrperur) þær eru. Perurnar henta vel sem aukalýsing með annari lýsingu eða í glugga, hvort sem er til að auka ljósmagn eða bæta litasamsetingu.
Ef perurnar eru langar þá gefa þær frá sér mest ljós til hliðanna og þær henta betur í milli/hliðar-lýsingu eða sem ofanlýsing í skerm eins og sést hér til vinstri. Einnig ber að hafa í huga að sparperur lýsa oftast meira til hliðar heldur en fram og aftur. Stuttar spírallaga perur er hinsvegar hægt að snúa á alla vegu og henta vel í borðlampa eða í álíka skerma.
Hægt er að fá sparperur í mjög mismunandi stærðum og gerðum. Ég hef sjálfur notað frá 12-125W sparperur en einnig er hægt að fá þær með minni eða meiri styrkleika en það. Það er frekar lítið gagn af perum undir 20W en ein slík pera getur dugað yfir eina lágvaxna plöntu. Yfir stærri plöntur er betra að vera með minnst þrjár perur sem eru allavegana 20-30W hver og dreifa þeim í kringum plöntuna. Ef um er að ræða stærri ræktun þá hentar vel að miða við 150-400W á fermeter. Hægt er að hafa sparperur mjög nærri plöntum án þess að plönturnar brenni og er ágætt að miða við að hafa ljósin alls ekki fjær en 25cm frá plöntunum.
Ég gerði eitt skipti tilraun með Radísur og 12W sparperu. Peran virkaði vel ef hún var nær plöntunni en 15cm og virkaði þá á um 15x15cm svæði. Út frá þeim niðurstöðum koma ráð mín um að hafa minnst 20W peru yfir einni stakri plöntu.