Að tryggja að plöntur fái öll nauðsynleg næringarefni sem þær þurfa á að halda er mikilvægur þáttur til að fá sem mestan vöxt, þroska og uppskeru. Hér verður farið yfir helstu grunnatriði er varða næringu.
Plöntur þurfa fjölbreytt úrval af næringarefnum, ekki bara til að lifa af heldur til að gefa vel af sér. Meðal þessara 17 næringarefna eru kolefni (C), súrefni (O) og vetni (H) sem oft gleymist að telja með sem næringarefni þrátt fyrir mikilvægi þeirra fyrir plöntur. Þessi þrjú efni fá plöntur úr andrúmslofti og vatni.
Að auki við þessi mikilvægu næringarefni þurfa plöntur einnig önnur næringarefni sem þær fá úr jarðveginum, en þessum næringarefnum er skipt í tvo flokka: aðalnæringarefni og snefilefni.
Aðalnæringarefnin eru þau sem plöntur þurfa í miklu magni og eru köfnunarefni (N), fosfór (P), magnesíum (Mg), kalsíum (Ca) og brennisteinn (S). Hér er ítarleg grein um aðalnæringarefnin.
Snefilefni eru hinsvegar næringarefni sem plöntur þurfa í mun minna mæli en er alveg jafn mikilvægt að séu til staðar til þess að viðhalda heilsu plantna. Snefilefnin eru járn (Fe), mangan (Mn), kopar (Cu), sink (Zn), bór (B), mólýbden (Mo), kóbalt (Co), klór (Cl) og nikkel (Ni).
Önnur efni sem vitað er að sumar plöntur taka upp og geta nýtt eru natríum (Na), kísill (Si), ál (Al).
Plöntur taka upp flest næringarefni úr jarðvegi eða næringarlausn sem jónir eða uppleyst sölt. Í jarðvegi koma flest næringarefnin upprunalega úr niðurbroti á bergefnum. Köfnunarefni er þó undantekning á þessu en það er bundið í jarðveg af gerlum sem vinna það úr andrúmsloftinu.
Tilbúinn áburður inniheldur næringarefni sem sölt. Þessi sölt leysast upp í jónir í vatni sem aðgengileg næringar efni fyrir plöntur.
Góður skilningur á næringarþörf plantna hjálpar til við umhirðu plantna sem og að bregðast við vandamálum þegar þau upp koma. Með því að sérhæfa næringu að þörfum plantna er hægt að hámarka heilsu, vöxt og uppskeru.