Til eru margar tegundir af myntum, þekktastar eru mynta og piparmynta. Mynta er mikið notuð í drykki eins og mojito eða heitt og kalt te. Einnig gefur hún salati ferskan blæ. Hún bætir lykt í húsum og gefur ferskan andadrátt ef hún er tuggin. Ýmsum meindýrum er illa við lyktina af henni og því sniðugt að hafa hana í kringum grænmetisgarðinn.
Fjölgun
Fræin spíra ekki eins vel ef þau eru sett of djúpt í jarðveginn. Fræjunum er gott að sá ofan á rakan jarðveg og það má sá þeim nokkuð þétt (0,5-1 cm milli fræja). Eftir að búið er að dreifa fræjunum ofan á jarðveginn er þeim þjappað lauslega niður til að þau snerti jarðveginn örugglega, á þessu stigi er ágætt sð spreyja vatni yfir fræin. Að lokum er plastpoka, filmu eða öðru álíka komið yfir pottinn til að halda öllu röku og hann settur á bjartan stað.
Umhirða
Mynta vill mjög þéttan jarðveg og því er ekki gott að nota vikur/sand í jarðveginn heldur velja jarðveg með miklu lífrænu efni eða kókos. Ekki þarf stóra potta en 15-25 cm er ágætis stærð. þó er hægt að nota bæði minni og stærri potta. Eftir að fræin byrja að spíra og kímblöðin eru flest komin upp er plastið fjarlægt.
Plönturnar vilja hafa jarðveginn rakan og þola illa þurrk. Þær eru mjög harðgerðar, vaxa vel utandyra í pottum og lifa veturinn af. Það er ekki ráðlagt að gróðursetja þær í beð vegna þess hve skriðular þær eru, þær munu yfirtaka allt beðið og gott betur. Til þess að halda plöntunum í örum vexti er gott að nota fljótandi áburð reglulega, þær þola mikinn áburð en það getur haft áhrif á bragðgæði að nota of mikið. Myntur þola talsverðann skugga en líður best í sól. Ég mæli ekki með að rækta myntu undir of sterkum ljósum, þær vaxa nægilega vel undir flúrlampa eða við glugga.
Uppskera
Þegar myntan er orðin um 15-25cm há er gott að taka hana í búnt og klippa niður um helming. Afskurðinn er svo bæði hægt að þurrka eða nýta ferskt í drykki o.fl. nefnt hér að ofan. Hún er þó betri fersk en þurrkuð.