Í þessari grein munum við rannsaka leyndardóma aðalnæringarefna til að rækta blómlegan garð!
Aðalnæringarefni eru þau efni sem nauðsynleg eru fyrir vöxt og þroska plantna og gegna lykilhlutverkum í ýmsum líffræðilegum ferlum þeirra. Í þessari grein förum við yfir aðalnæringarefnin sem eru: nitur (N), fosfór (P), kalíum (K), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg) og brennisteinn (S). Við förum yfir hlutverk hvers næringarefnis fyrir sig, hvernig plöntur taka þau upp og einkenni þess að fá of lítið eða of mikið af næringarefninu.
Að skilja hlutverk og mikilvægi þessara næringarefna mun hjálpa þér að veita plöntunum þínum bestu mögulegu skilyrði til að dafna og hámarka uppskeru þína.
(N) Köfnunarefni/Nitur
Köfnunarefni er að finna í öllum lifandi frumum og er nauðsynlegur partur í öllum próteinum, ensímum og við framleiðslu á orku (ljóstillífun). Það er til dæmis mikilvægt í grænukornum sem eru sá partur af plöntufrumum sem sér um ljóstillífun.
Köfnunarefni stuðlar að öflugum vexti, eykur magn og gæði laufa og gefur plöntum fallegan grænan lit. Of mikið af köfnunarefni er slæmt í ræktun ávaxta þar sem plöntur verða með of mikinn grænvöxt og leggja litla orku í framleiðslu ávaxta. Það má segja að plönturnar hafi það svo gott að þær sjái ekki ástæðu til þess að fjölga sér.
Plöntur geta tekið köfnunarefni upp á nokkra vegu. Þeir algengustu eru:
- Nítrat (NO3-) er neikvætt hlaðin jón. Við upptöku þess getur sýrustig hækkað í jarðvegi og næringarlausn hringrásarkerfa (sjá nánar í grein um Sýrustig). Nítrat er eitt algengasta efnið í tilbúnum áburði og er algengt í jarðvegi.
- NiturAmmóníum (NH4+) er jákvætt hlaðin jón og hefur öfug áhrif á sýrustig á við Nítrat. Bakteríur í jarðvegi brjóta niður ammóníum í nítrat og lækka við það sýrustigið á sama hátt og plöntur. Í því ferli nota þær súrefni sem getur skaðað rætur vegna súrefnisskorts í þéttum ræktunarefnum þar sem súrefni er þegar af skornum skammti. Dæmi um ræktunarefni sem innihalda ekki mikið súrefni eru fín torfmold og steinull.
- Urea ((NH2)2CO) hefur enga hleðslu og er tekin upp sem sameind í stað jóna og hefur því ekki áhrif á sýrustig við upptöku plantna. Bakteríur í jarðvegi brjóta urea niður í ammóníum.
Til eru plöntur sem þola ammoníum ekki vel og í flestum tilfellum er ráðlagt að hafa nítrat í meirihluta. Algengt er að ammóníum sé 5-25% af heildar köfnunarefni í áburði.
Köfnunarefni er hreyfanlegt næringarefni sem þýðir að við köfnunarefnisskort verða eldri laufblöðin ljósgræn og svo gul því að plantan flytur köfnunarefnið til nýju laufblaðanna og laufblöðin visna síðan upp. Við viðvarandi köfnunarefnisskort dregur einnig úr vexti, plönturnar verða grannar og yngri vöxtur verður einnig ljósgrænn.
Köfnunarefni í tilbúnum áburði er mjög vatnsleysanlegt og skolast auðveldlega í burtu úr jarðvegi. Besta leiðin til að viðhalda köfnunarefni í jarðvegi er að hafa mikið lífrænt efni í honum. Sumar plöntur binda eigið köfnunarefni í jörð með aðstoð gerla úr andrúmslofti, t.d. Lúpína, Gullsópur og baunaplöntur.
(P) Fosfór
Eins og nitur er fosfór nauðsynlegt efni í ljóstillífun og orkumyndun þar sem hann er notaður í ATP ásamt því að hjálpa við framleiðslu á olíum og sykrum. Fosfór hvetur meðal annars plöntur til rótarmyndunar, blómgunar og vaxtar ávaxta.
Fosfór er tekinn upp af rótum plantna á forminu H2PO4-. Sé sýrustig í jarðvegi eða næringarlausn of lágt þá breytist það í H3PO4 en sé sýrustig of hátt breytist það í HPO42-.
Fosfór er mjög hreyfanlegt næringarefni. Fosfórsskortur kemur þess vegna fyrst fram í eldri laufblöðum. Fyrstu einkenni fosfórskorts eru að elstu laufblöðin verða dökkgræn, rauð eða fjólublá, sem svo færist upp eftir plöntunni og við viðvarandi fosfórskort skemmist öll plantan.
Fosfórupptaka hjá rótum þarfnast orku og því getur verið óæskilegt að sumra mati að gefa kímplöntum fosfór en aðrir líta svo á að þar sem fosfór örvi rótarvöxt sé gott að gefa ungum plöntum fosfór.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ammóníumríkur áburður hjálpi til við upptöku fosfórs.
(K) Kalíum
Kalíum hjálpar plöntum við öndun, myndun próteina og sykurs, ljóstillífun, eykur bragðgæði ávaxta og hjálpar við sjúkdómavarnir.
Kalíum er tekinn upp af rótum plantna á forminu K+.
Kalíum er hreyfanlegt næringarefni. Kalíumskortur kemur þess vegna fyrst fram í eldri laufblöðum. Fyrstu einkenni skorts eru að eldri blöð verða gulflekkótt á milli æðanna, blaðjaðrar sviðna og einkennin færast upp eftir plöntunni því lengur sem skorturinn varir.
Of mikið kalíum getur haft neikvæð áhrif á upptöku annara plúshlaðinna næringarefna eins og t.d. kalk og magnesíum.
Það er oft mikið af kalíum í moltu úr lífrænum úrgangi. Bananahýði innihalda t.d. mikið kalíum og því er hægt að bæta því við moltuna á einfaldan hátt.
(Ca) Kalk
Kalk er ómissandi hluti við uppbyggingu frumuveggja, hjálpar við flutning á sykrum, upptöku á köfnunarefni og jafnar sýrustig á móti lífrænum sýrum innan plantna.
Kalk er tekið upp af rótum plantna á forminu Ca2+.
Kalk er óhreyfanlegt næringarefni. Kalkskortur kemur þess vegna fram fyrst í yngstu laufblöðunum og vaxtarbroddum en við mikinn kalkskort getur vaxtarbroddur plöntunnar dáið. Einkennin eru hægari vöxtur og ljósgrænir flekkir sem síðar deyja. Tómatar og paprikur eru viðkvæmar fyrir kalkskorti vegna þess að þá getur myndast stílrot í ávöxtum plöntunnar, en það lýsir sér sem svartur blettur á botni ávaxtarins.
Kalk er t.d. hægt að fá úr gifsi, eggjaskurn og skeljasandi. Kalk er oft notað til þess að hækka sýrustig í ræktunarefni en getur gert það of basískt í of miklu magni.
(Mg) Magnesíum
Magnesíum er mikilvægt efni í grænukornunum líkt og köfnunarefni og er því ómissandi við ljóstillífun ásamt því að virkja ensím sem stuðla að vexti, hjálpa við framleiðslu kolefnissambanda (t.d. sykrur og olíur) og hjálpa við upptöku og flutning næringarefna.
Magnesíum er tekið upp af rótum plantna á forminu Mg2+.
Magnesíum er hreyfanlegt næringarefni. Magnesíumskortur kemur þess vegna fyrst fram í eldri laufblöðum. Einkennin eru gulnun á eldri laufblöðum sem byrjar í blaðjaðri og leitar inn á við en æðarnar haldast grænar nema þegar um mikinn skort sé að ræða.
Magnesíum fæst meðal annars úr moltu, dolomít kalki eða epsom salti.
(S) Brennisteinn
Brennisteinn er nauðsynlegur við framleiðslu próteina og ensíma ásamt því að hjálpa við gerð grænukorna. Brennisteinn eykur frævöxt, rótarvöxt og gefur plöntum betra kuldaþol.
Brennisteinn er tekinn upp af rótum plantna á forminu SO42-.
Brennisteinn er ekki hreyfanlegt næringarefni. Brennisteinsskortur kemur þess vegna fyrst fram í yngstu laufblöðunum og vaxtarbroddum. Einkennin eru jöfn gulnun á yngstu blöðunum sem færist fljótt yfir á eldri blöð.
Oft er brennisteinsskorti ruglað saman við köfnunarefnisskort, en muninn má sjá á því hvort skortseinkennin byrji í elstu eða yngstu laufblöðunum.
Brennistein er að finna í epsom salti. Hægt er að kaupa brennisteinsduft sem notað er til að lækka sýrustig ræktunarefnis. Þetta ferli gerist ekki hratt þar sem að bakteríur þurfa að brjóta brennisteinsduftið niður í brennisteinssýru. Þetta getur tekið langan tíma, sérstaklega í lágu hitastigi, t.d. utandyra á Íslandi.