Djúpvatnsræktun (DWC, deep water culture) er ein einfaldasta aðferðin við vatnsræktun og er mikið notuð erlendis í gróðurhúsaiðnaði. Þar er plöntum komið fyrir á flekum sem fljóta á súrefnisríkri næringarlausn. Það eru líka til minni útgáfur af DWC úr fötum eða plastkössum, en þá eru göt boruð á lok þeirra sem netapottum er komið fyrir í.
Grunnurinn af kerfinu er að netapottum er komið fyrir þannig að botn þeirra rétt snerti næringarlausnina og í næringarlausnina er lofti dælt í miklu magni. Næringarlausnin verður svo loftrík að ræturnar vaxa djúpt ofan í hana.
Það þegar rætur eru á kafi í súrefnisríku vatni. Í þessu kerfi er loftdæla og loftsteinn nauðsynlegt til að rætur fái nægilegt súrefni. Ef loftdæla stoppar verður vatnið fljótt súrefnislaust og rætur geta kafnað.
Ég mæli með því að forðabúrið innihaldi nægjanlega mikið af næringarlausn til þess að ekki þurfi að fylla á hana nema á 1-2 vikna fresti. Sé forðabúrið of lítið þarf alltaf að vera að blanda næringarlausn og meiri hætta er á að plöntur verði fyrir vatnsskorti. Sé forðabúrið of stórt þarf hugsanlega að fylgjast vel með leiðnitölu og sýrustigi.
Kostir
Mjög einfalt kerfi í upsetningu. Það eina sem þarf að kaupa er loftdæla og loftsteinn. Annað er oft hægt að finna á heimilinu eða annarsstaðar. T.d. er hægt að útbúa netapotta úr jógúrtdollum og nota ýmis ílát sem forðabúr svo lengi sem þau eru vatnsheld.
Gallar
Stöðvist loftdælan í of langan tíma er hætta á að rætur kafni mjög fljótlega. Þó ætti ekki að saka þótt kerfið stoppi í stutta stund. Erfitt getur verið að fylla á þessi kerfi sé það ekki haft að leiðarljósi við hönnun kerfisins því þá getur þurft að lyfta öllum plöntunum upp til þess að bæta á kerfið.
Það sem þarf
Tankur með loki
Loftdæla og loftsteinn
Netapottur og ræktunarefni