Flúrperur henta ágætlega sem gróðurljós, þær eru ódýrar, endast ágætlega og eru frekar orkunýtnar ásamt því að gefa ekki frá sér mikinn hita. Þær henta best við ræktun á ungplöntum, græðlingum, klónum, kryddjurtum og grænmeti. Það er vel hægt að rækta ljóselskar plöntur undir flúrljósum en vöxtur verður hægari og uppskera minni. Gott er að hafa ljósin í um 20-30 cm fjarlægð frá plöntunum til þess að fá sem besta dreifingu á ljósinu. Það er þó hægt að hafa ljósin mjög nálægt plöntunum eins og sést hér til hliðar.
Perurnar fást í ýmsum litaafbrigðum og eru flokkaðar eftir því hvort þær gefa frá sér meira bláleitt eða rauðleitt ljós. Bláleit flúrljós eru oftast notuð sem vinnuljós, kallast oftast daylight og eru með kelvin tölu yfir 6000K. Rauðleitar eru meira notaðar í almenna heimilislýsingu og kallaðar warm white, þær eru með kelvin tölu undir 4000K. Flúrperur milli 4000-6000K gefa oftast frá sér meira grænt ljós og eru því ekki eins æskilegar sem plöntuljós. Einnig er hægt að fá sérstakar gróðurperur sem eru fjólubláar en þær eru dýrari og ég er ekki viss um hversu mikið betri þær eru en hinar svo ég get hvorki mælt með þeim né gegn.
Perurnar eru langar og afl þeirra fer eftir lengd perunnar. Þess vegna er best að hafa minnst 2-3 perur samhliða til að ná nægum ljósstyrk fyrir plönturnar. Mismunandi sverleikar eru fáanlegir og þeir algengustu kallast t5 (grannar) og t8 (breiðar). Það virkar öfugsnúið en sverari perurnar eru aflminni en þær grennri svo hægt er að fá meira afl á fermeter með t5.
Flúrperur geta virkað mjög lengi en ljósmagnið sem þær gefa frá sér dalar með aukinni notkun. Gott er að miða við 10-20.000 klukkustundir í notkun eða skipta um perur á tveggja til þriggja ára fresti miðað við mikla notkun.